Friday, November 28, 2008

Kristnihald undir jökli

Bók Halldórs Laxness, Kristnihald undir jökli kom fyrst út árið 1968. Með henni kom höfundur mörgum lesendum sínum á óvart á ýmsan hátt. Hún er síðasta skáldsaga höfundar sem nær almennum vinsældum hér á landi og síðust bóka hans þar sem fyrir koma persónur sem verða eign allra landsmanna.

Bókin fjallar um ferð ungs guðfræðings, - umboðsmanns biskups eða Umba sem sendur er af Biskupsstofu vestur undir jökul eða vestur á Snæfellsnes til þess að kanna og gera skýrslu um embættisfærslu og hjúskaparmál séra Jóns sóknarprests þar vestra, en heyrst hafði að hann væri hættur hefðbundnum embættisfærslum og einnig hafði flogið fyrir að hjúskaparmál hans væru í ólestri.

Þungamiðja bókarinnar er séra Jón sem nefndur er prímus, - nafngiftina hlaut hann vegna þess að hann var einkar laginn að gera við prímusa. Hann var handlaginn og vélglöggur maður og var kallaður til ef vélar biluðuð í bátum eða frystihúsum þar vestra og sinnti hann meira vélaviðgerðum en sálusorgun og messuhaldi í sókn sinni.

Ýmislegt drífur á daga Umba á ferð hans undir jökli og kynnist hann mörgu skrítnu og skemmtilegu fólki þar, sem eru sem bráðlifandi fólk í hugum margra Íslendinga. Eftir sögunni hefur verið gerð kvikmynd, en dóttir höfundar, Guðný Halldórsdóttir gerði kvikmynd sem byggir á sögunni, en myndin náði ekki almennum vinsældum. Leikritsgerð sögunnar sem færð var upp af Leikfélagi Reykjavíkur naut aftur á móti fádæma vinsælda og var á fjölunum um óvenjulangan tíma í Iðnó á áttunda áratugnum.

Ýmsir hafa fengist við að leita fyrirmyndar höfundar að Jóni Prímusi, og hafa þá flestir leitað fanga vestur á Snæfellsnes. Staðkunnugir þar um slóðir halda því statt og stöðugt fram að ýmsir prestar þeirra Snæfellinga fyrr á árum bæði í Ólafsvík og Grundarfirði og jafnvel víðar þar um slóðir eigi hver sína ögnina í séra Jóni, enda vandséð að ein einstök fyrirmynd geti verið að jafn einstakri persónu og séra Jón er í þessari margbrotnu sögu.
Dís

Dís er skáldsaga sem fékk mikið lof gagnrýnenda þegar hún kom út árið 2000. Ólíkt öðrum bókum eru þrír höfundar af henni, þær Birna Anna Björnsdóttir, Silja Hauksdóttir og Oddný Sturludóttir og er þetta fyrsta bók þeirra.

Dís er lifandi saga sem gerist að mestu í Reykjavík að sumarlagi árið 2000. Segir frá ungri sjarmerandi 23 ára reykvískri stúlku, Dís að nafni sem stendur á tímamótum í lífi sínu. Hún er að ganga í gegnum tilvistarkreppu. Í fyrsta sinn þarf hún að horfast í augu við raunveruleikann og framtíðarplön hennar eru í óvissu. Hún þarf að taka ákvörðum um hvað hún vilji gera við líf sitt og hvað hana langar til að verða þegar hún verður stór. Svo virðist sem allir í kringum hana séu komnir á siglingu inn í framtíðina í fjölskyldupakkann, námsmannapakkann eða skrifstofu-dragtarpakkann, svo ekki sé talandi um að fíla-sig-í-erlendri-stórborg-pakkinn. Við þessar hugrenningar missir Dís fótanna í samanburðinum. Dís finnst hún umkringd framúrskarandi fólki sem hún kemst ekki með tærnar þar sem þau hafa hælana og upplifir sjálfan sig sem óspennandi, meðalmanneskju í samanburði. Og reynir eftir fremsta megni að spyrna gegn þessu hlutskipti sínu og takast á við tilfinningar sínar.

Sagan er fremur nýstárleg og fyndin á köflum. Létt skáldsaga um lífið í Reykjavík í nútímanum. Hún er full af hlýju og gleði með örlitlu hæðnu ívafi. Persónusköpun aðalpersónunnar er skemmtilega framsett og lesandinn fær að skyggnast inn í þann flókna en jafnframt hversdagslega hugarheim hennar.
Sjálfstætt fólk

Halldór Laxness skrifaði bókina Sjálfstætt fólk á árunum 1934 – 1935. Þetta er sú bók sem hefur farið hvað víðast um heiminn og aflað skáldinu hvað mestrar aðdáunnar og frama.

Sjálfstætt fólk gerist í upphafi tuttugustu aldar. Guðjartur Jónsson vinnumaður á Útirauðsmýri hafði unnið húsbændum sínum í 17 ár og alltaf borið þann sterka og einlæga draum að verða sjálfstæður bóndi. Atvikin á Útirauðsmýri höguðu því svo til að honum var gert kleift að kaupa gamalt eyðikot Vetrarhús, sem hann nefndi síðan Sumarhús og hóf þar búskap ásamt konu sinni, Rósu fyrrum vinnukonu á Útirauðsmýri. Guðbjartur er upp frá þessu aldrei nefndur annað en Bjartur í Sumarhúsum, og undir því nafni þekkir íslenska þjóðin hann.

Margir hafa spreytt sig á þeirri gátu hver sé fyrirmynd Bjarts, og hafa leitað víða fanga en helst þó austur á landi í Jökuldalsheiðina. Þar var t.d. til kot sem hét Veturhús og hafa margir haldið því fram að þar hafi heimahagar Bjarts verið.

Bjartur og lífsbarátta hans er saga mannsins sem berst fyrir frelsi sínu og fórnar til þess öllu.. Höfundurinn hefur sagt að Bjartur sé ekki bara ímynd íslenska kotbóndans heldur eigi Bjartur sér sínar fyrirmyndir alls staðar, í öllum gerðum samfélaga og á öllum tímum.

Barátta Bjarts er ekki bundin baráttu íslenska kotbóndans, - með réttu má segja að þessi kotbóndi sé jafnvel mesti heimsborgari Íslands, - því að Bjartur er til alls staðar í heiminum. Hann á ekki eingöngu heimili sitt um allan heim - heldur á hann einnig heima í brjósti okkar allra, og þannig á barátta Bjarts og lífssaga hans erindi til okkar allra – á öllum tímum.

Friday, November 14, 2008

Flugdrekahlauparinn

Bókin flugdrekahlauparinn eða The Kite Runner eins og hún heitir á frummálinu var mjög umdeild þegar hún kom út árið 2003.

Flugdrekahlauparinn er heillandi skáldsaga sem lýsir á athyglisverðan hátt lífi tveggja bræðra, Amirs og Hassans í Afganistan. Djúpa innilega vináttu bræðranna, lífi þeirra og sorgum sem leiðir af sér grimm örlög, dauða og sekt. Höfundur bregður upp leiftrandi myndum af daglegu lífi í Afganistan frá áttunda áratugnum til dagsins í dag. Leyfir lesandanum að kynnast fólki í öllum stéttum þjóðfélagsins, fær innsýn í daglegt líf í Afganistan fyrir og eftir byltingu Talibana. Sýnir mannlíf, menningu og sögusvið sem flestir á vesturlöndum þekkja einungis af afspurn.

Bók þessi er afburða vel skrifuð og á lesandinn einstaklega gott með að lifa sig inn í sögusvið og söguþráð bókarinnar þrátt fyrir ólíkar aðstæður, menningu, siði og tungumál sem er með gjörólíkum hætti, ólíkt því sem þekkist er hér í norðri. Er ekki hverjum manni hollt að lesa slíkar bækur til að kynnast öðrum menningarheimum og til að koma í veg fyrir fordóma sem oft á tíðum spretta upp af fáfræðslu.

Flugdrekahlauparinn er áhrifamikil bók. Höfundur uppfyllir vel trúverðuleika hennar með afburða lýsingum, á aðstæðum fólks og umhverfi. Í lok sögunnar lætur höfundur eftir sér að krydda tilviljanir og tengja saman atburði sem hentu sögupersónurnar og uppgjör þeirra þegar komið er á fullorðins ár.
Hroki og hleypidómar

Hroki og hleypidómar eða Pride and Prejudice eins og hún heitir á frummálinu er líklega og margra mati ein besta saga höfundar og sú vinsælasta. Hún var upphaflega gefin út árið 1813 af Jane Austin sem skrifað hefur fjöldann allan af bókum.

Höfundur lýsir á áhrifaríkan hátt stéttarskiptingu sem endurspeglar þann tíðaranda sem átti sér stað og gefur innsýn í aðallinn í Bretlandi á þessum tíma. Enskur klassískur stíll, fallegir búningar og tilkomumikið landslag, fagrar slettur. Stéttarskipting hefur gríðarleg áhrif í gengum alla söguna og mótar hana á vissan hátt. Hvernig líf kvenna byggist á rétti maka, en eiginkonur eiga allt undir maka sínum og tilgangur giftingar er að eiga betra líf. Sem gefur skýra mynd af tíðaranda þess tíma sem bókin er skrifuð.

Fjöldinn allur af skemmtilegum karakterum eru í sögunni og má þar nefna frú Bennett sem fer algjörlega að kostum í þessari bók. Hún er mjög ýktur persónuleiki, áköf með eindæmum og ótrúlega fyrirferðamikil en frekar einföld. Fáguð framkoma hefur talsvert að segja í sögunni. En frú Bennett býr ekki yfir slíkri framkomu. En aftur á móti dóttir hennar Elísabeth sem leikur stórt hlutverk í sögunni er karakter sem hefur fágaða framkomu en jafnframt mjög ákveðnar skoðanir og staðfestu í sínum ákvörðunum. En slíkt tíðkaðist ekki á þessum tíma að konur hefðu miklar skoðanir og leggðu eitthvað til málanna.

Ótrúlegt að bók sem gefin var út fyrir um 195 árum hafi svona mikil áhrif enn þann dag í dag. Hún er frábært samspil af fallegri rómantík og skemmtilegum uppákomum sem lúta þeim tíðaranda sem átti sér stað á þessum árum. Auk þess er umhverfi að öllu leyti mjög vel lýst, hvort sem það á við um húsakost, landslag, persónum og eða öðru sem tengist sögunni.

Tuesday, September 23, 2008

Tíu litlir negrastrákar
Útgáfa bókarinnar Tíu litir negrastrákar sem kom út um síðustu jól hér á landi hefur verið mjög umdeild, útgáfa hennar vakti ugg margra foreldra, þá einkum meðal þeirra sem eiga blönduð börn, sem bæði eru að kynstofni hvítra og svartra. Bókin er þýdd af Gunnari Egilssyni, en teikningar í bókinni eru eftir Mugg. Bókin var fyrst gefin út í Bandaríkjunum árið 1868 undir heitinu Ten Little Niggers en nafni bókarinnar hefur að minnsta kosti tvisvar verið breytt frá því upprunalega. En orðið nigger er niðrandi í augum hörundsdökkra manna.

Bók þessi lýsir á athyglisverðan hátt hvernig tíu lítil svört börn deyja voveiflegum dauðdaga. Búið er að milda íslensku útgáfuna örlítið miða við þá bandarísku, sem dæmi, orðið nigger hefur verið breytt í negri ásamt lítils háttar öðrum breytingum, m.a. hvernig hún endar. Allir deyja þeir í bandarísku útgáfunni en einn lifir af í þeirri íslensku. Eins og segir í bandarísku útgáfunni: “One little nigger boy left all alone. He went and hanged himself”. En algengt var að dauðdagi hörundsdökkra manna væri með þessum hætti á þeim tíma sem bókin var fyrst skrifuð. Ef til vill endurspeglast reiði foreldra hér á landi við að lesa slíkar setningar og slík orð kyndi undir fordóma.

Foreldrar hörundsdökkra barna hafa farið fram á það við yfirvöld hér á landi að bókin verði hvorki sýnd né lesin í leikskólum landsins. Ástæðuna segja þeir að ýti undir kynþáttafordóma og jafnvel leiði til eineltis. Spurningin er, - hvað er það sem vekur upp fordóma hjá fólki?. Er það bókin sem slík? Hvernig hún er skrifuð eða túlkun hennar? Ekki er ólíklegt að höfundur bókarinnar, Septimus Winner hafi verið að vitna í söguna, sögu Bandaríkjanna hér á árum áður. Þó hann hafi ekki ætlað sér að bókin leiddi af sér fordóma og kynþáttahatur, heldur hefur hann verið að túlka raunveruleikann. Svo er hægt að spyrja sig, ef sögur eiga ekki að fjalla um lífið og túlkun þess, um hvað eiga þær að fjalla? Að sama skapi er hægt að spyrja sig hvort samspil lífs og listar sé borðleggjandi?